Þrjú bænahús verða væntanlega reist í Reykjavík á næstu árum. Það er Rússneska rétttrúnaðarkirkjan, Félag ásatrúarmanna og Félag múhameðs*trúarmanna sem hafa fengið vilyrði um lóðir í Reykjavík og er málið þessa dagana til umfjöllunar hjá umhverfisráði.
Félag íslenskra múslima þarf 4.000-5.000 fermetra lóð undir mosku og er stefnt að því að byggingin verði rúmlega 2.000 fermetrar að stærð. Verið er að gera úttekt á lóðinni við hliðina á Staldrinu norðan við Garðheima í krikanum hjá Stekkjarbakka og Reykjanesbraut. Lóðin tilheyrir Elliðaárdalnum og þarf því að gera breytingu á aðalskipulagi dalsins ef þetta á að ná fram að ganga.
Helga Bragadóttir, skipulagsfulltrúi í Reykjavík, segir að lagt verði til við skipulagsráð að svæðið verði tekið til deiliskipulags sem allra fyrst ef ákveðið verður að úthluta múhameðstrúarmönnum þessari lóð. Á þetta svæði geti komið til viðbótar önnur starfsemi, til dæmis sem tengist dalnum.
Tveir til þrír staðir koma til greina fyrir kirkju og félagsheimili Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, annað hvort norðan við fyrirhugaðan duftgarð við Leynimýri í Öskjuhlíð, á Landakotstúni við bílastæðið gegnt rússneska sendiráðinu eða við Hávallagötu 14 þar sem nú eru byggingar kaþólsku kirkjunnar.
Faðir Timofej, yfirmaður Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi, segir að kirkjan verði byggð í hefðbundnum stíl með kúplum í anda kirkjunnar og að hönnun og framkvæmdir hefjist vonandi strax í sumar eða um leið og borgaryfirvöld gefa grænt ljós. Hann segir að byggingin verði 600 fermetrar að stærð, kirkja, safnaðarheimili og skóli.
Faðir Timofej segir að allir staðirnir séu góðir en kannski sé Landakotstúnið besti staðurinn því að þaðan sé stutt í rússneska sendiráðið auk þess sem kirkjan sé í góðu sambandi við bræður sína í kaþólsku kirkjunni.
Þá er til umræðu að úthluta ásatrúarmönnum 1.500-2.000 fermetra lóð undir byggingu um 700 fermetra hofs, félagsheimilis og dómhrings í skógarjaðri í Leynimýrinni. Ásatrúarmenn myndu þar hafa sameiginlega aðkomu með Perlunni.
Bookmarks